Umsagnir um Dúnstúlkuna í þokunni frá Þorgeiri Tryggvasyni, Vigdísi Grímsdóttur og fleiri á fb.
Vigdís Grímdóttir:
“Þetta er með bestu bókum, hefðu menn sagt í minni heimasveit, og bætt við að fáir höfundar, ef nokkrir, hefðu jafn sterk tök á efni og formi. Ég þakka höfundi innilega fyrir listilega skrifaða og áhrifaríka bók.”
Sindri Freysson:
“Bjarni hefur oftar en ekki verið í fremsta flokki rithöfunda hérlendis í bókmenntagrein sem kalla má með heilbrigðum fyrirvara „norrænt töfraraunsæi“. Sú skepna hefur aldrei verið kortlögð til hlítar en er líklega skyldari verkum William Heinesen en Márquez og þeim blóðheitu suður-amerísku jöfrum öllum, þó að allt magnist þetta saman í margslunginn vef, þar sem höfuðáttirnar fjórar eru haldlítil viðmið. Bjarni hefur sína eigin einkennandi rödd á því ágæta grímuballi og bókin hans nýja sýnir það glöggt; í senn hugmyndarík, íhugul, óvænt og hlý. Meira að segja þegar persónurnar sæta mestri grimmd er væntumþykja höfundar alltumkring –þetta er bók með stórt hjarta og auðvitað er dúnstúlkan með bómullarfingur. Bók sem gefur að auki hugtakinu „söguleg skáldsaga“ glænýja og draumkennda vídd. Langanes mun aldrei lúkka einsog áður í augum ferðalangs á heimsenda.”
Eiríkur Bergmann:
“Dúnstúlkan í þokunni er einhver áhugaverðasta bók jólabókaflóðsins sem rekið hefur á fjörur mínar þetta haustið. Í feikilega vandaðri sögulegri skáldsögu segir Bjarni M. Bjarnason af Dauma Jóa sem var uppi á Langanesi á ofanverðri nítjándu öld. Jói var álitnn draumskyggn og jafnvel göldróttur. Í bókinn vefur Bjarni saman mynd af söguhetjunni og sögusviðinu í dulúðlegri frásögn. Bókin er feikilega vel skrifuð og margar málsgreinar svo lisltilega smíðaður að maður freistast til þess að lesa þær margoft yfir. Hér hefur greinilega verið nostrað við hverja setningu af auðsýndri virðingu fyrir viðfangsefninu.”
Brynja Þorgeirsdóttir:
“Nýárslesturinn var Dúnstúlkan í þokunni sem Bjarni M. Bjarnason hefur skrifað af miklu listfengi. Þvílík fegurð í þessum texta hjá Bjarna, mitt í öllum þessum ljótleika mannlífsins sem hann dregur svo ótrúlega næma og trúverðuga mynd upp af. Þetta er spennandi, dularfull og fögur saga sem ríghélt mér allt til enda – og þá var næstum kominn morgunn. Og þá fór ég að sakna sögupersónanna og andrúmsloftsins í sögunni. Þannig eru bara albestu bækurnar.”
Einar Örn Gunnarsson:
“Ég var að ljúka við lestur skáldsögunnar Dúnstúlkan í Þokunni eftir Bjarna M Bjarnason. Ég mæli eindregið með henni því hún er margbrotin, spennandi og aldrei er dauðan punkt þar að finna. Stíllinn er lipur, blæbrigðaríkur og auðugur. Þó sögusviðið sé drungalegt og dulúðugt Langanes á nítjándu öld þá er dreginn upp með trúverðugum hætti áhugaverð mynd af samfélagi sem þrífst þar, lífháttum og lífsbaráttu fyrri aldar. Lýsingar eru myndrænar og persónur rísa upp af síðunum ljóslifnandi. Ein aðalpersónan sækir fyrirmynd sína til raunverulegrar persónu eða Drauma Jóa sem fæddist í afskekktri sveit á Langanesi um miðbik nítjándu aldar og átti ættir sínar að rekja til galdramanna. Var honum í blóð borin fjarskyggnigáfa sem fræg var. Þó greint sé frá Drauma-Jóa þá eru lögmál skáldskaparins ríkjandi í frásögninni. Þetta er óvenjuleg saga og endurspeglast það í samskiptum Drauma Jóa við dúnstúlkuna sem mótar tilveru hans og framtíð. Þegar ég lagði frá mér bókina fannst mér ég hafa ferðast langan veg og vera heilli veröld ríkari.”
Sr. Heiðrún Helga Bjarnasdóttir.
"Dúnstúlkan í þokunni er besta bók sem ég hef lesið í áraraðir.
Þannig bók að ég eldaði ekki kvöldmat í gær, skreið upp í kl níu, las fram á rauða nótt, og mætti of seint á fund í morgun því ég þurfti að lesa smá meira áður en ég hélt út í daginn.
Og nú tími ég ekki að klára hana. Er að spara síðustu kaflana.
Ég er búin að vera lengi á leiðinni að byrja á henni. Því mér verður illt í maganum þegar ég les um illa meðferð á fólki. Les helst ekki þannig bækur. En þessi illa meðferð er pökkuð inn í svo fallegan ... æðardún, sagan er öll svo falleg, og það er svo stutt í vonina og fegurðina í öllum ljótleikanum og óréttlætinu.
Nú veit ég ekki hvernig hún endar, en hún hefur þannig áhrif að ég varð að deila henni hér inn, 5 stjörnur af 5 mögulegum."
Gísli Helgason.
Ég var að ljúka við bókina Dúnstúlkan í þokunni. Sérlega góð bók, margslungin og að mínu viti algjör snilld. Þar er dregin upp mynd af því hversu margt fólk sem var á einhvern hátt minni máttar eða ekki alveg einsog aðrir vildu að það væri mátti þola skefjalaust ofbeldi. Samt á margan hátt fallega skrifuð en ekkert dregið undan. Endilega náið í þessa frábæru bók. Höfundurinn frábær.
Þorgeir Tryggvason:
“Bókin sem kom mér sennilega mest á óvart er Dúnstúlkan í þokunni. Mér fannst hún magna upp eitthvað andrúmsloft sem ég minnist þess ekki að hafa séð áður.”