Hallgrímur Helgason skrifar um Dúnstúlkuna í þokunni á fb-síðu sinni.

Hallgrímur Helgason fjallar um Dúnstúlkuna í þokunni á fb-síðu sinni 30. Desember. 2023:

 

“Þessi (Mynd af Dúnstúlkan í þokunni deilt) læddist undir jólatrén með tilnefningu á bakinu og laumaði sér upp í rúm. Var þetta kafbátur flóðsins? Það tók mig allavega 30 bls að komast inn í hana, stíllinn þótti mér höktandi. En svo var það einmitt höktið sem opnaði setningarnar og úr varð annarskonar lestrarupplifun, dýpri og innilegri. Bjarni M. Bjarnason virðist gjörþekkja efni sitt og það skilar sér, þessi gamla sveit opnast manni, þessi gamli veruleiki skríður fram, eins og sögupersónan sjálf í fjörunum norður á Langanesi. Lesandinn kannaðist við Drauma-Jóa, nafnið, en þekkti ekki sögu hans, sem hér er skáldað um og uppúr. Veit nú meira og þekkir loks ögn af Langanesbyggð. Hér sannast enn og aftur hvað bókmenntir geta gert mikið fyrir staði. Nú langar mig norður á Langanes. Aldrei langaði mig norður á Langanes.

Hér fær lægsta lagið í íslenska bændasamfélagi nítjándu aldar rödd og mál, og þvílík kúgun, þvílík niðurlæging á mannsins lífi sem opnast hér. Þvílíka eymdin og fátæktin. Líkt og svartir höfundar Bandaríkjanna hafa gert á undanförnum áratugum leiðir Bjarni hér fram sögu smælingjanna, niðursetninganna okkar, hinnar sönnu íslensku þrælastéttar. Drauma-Jói er svo lágt settur að hann er nánast láréttur megnið af sögunni, rúmfastur, barinn, gólffastur, fjöruskríðandi, með samfélagið á herðunum, á bakinu … Og svo hart er það við hann að það murkar nærri því líftóruna úr honum. Í stórum hluta bókarinnar er drengurinn hálf dauður. Bjarna tekst að segja sögu eins aumasta manns Íslandssögunnar. Ástand hans er svo illt að hann lifir nánast eingöngu í draumum sínum, þjáningarnar koma honum í samband við allífið. Svo mikið lifir hann í svefninum að fólk tekur að hópast að honum þar sem hann fleygir sér á engjum; draumar hans verða líkt og internet okkar daga: Fólkið getur spurt þennan sofandi Google að hverju sem er og fær alltaf rétt svör, töluð upp úr svefni. Hvar er tóbakið mitt sem stolið var frá mér fyrir jól? Og er þetta fyndni hluti bókarinnar.

Framan af þekkir Drauma-Jói fólkið ekki af andlitum þess heldur röddum og skófatnaði, augun leyfa sér aldrei að líta upp. Snilldarbragð hjá höfundi. Snilldarbragð annað er að láta hann búa og liggja á gisnu lofti yfir baðstofunni á bænum: Hann svífur þar yfir fólkinu líkt og yfirburðamaður (sem hann að vissu leyti er þrátt fyrir stöðu sína) á himni og hlýðir á vinnumenn tala um sig og sína, segja lygasögur og ýkjusögur af ætt sinni, níða sig og niðra. Móðir Jóa er svo illa leikin að hún getur vart haldið sér vakandi yfir daginn. Hún er lægra sett en gólftuskan á bænum, henni er skipað út og suður á milli þess sem henni er nauðgað í skemmu af vinnumannsgroddunum á þessu vesæla prestsetri. Aðeins Jói reynir sitt besta til að hugsa um hana og hefur hana með sér líkt og fatlaða dóttur í æðarvarpið sem hann fær loks að sjá um. Vinnugroddarnir höfðu ónýtt það fyrir prestinum en Jói nær að laða kollurnar til sín. Eins og einhverskonar sjófugla-smali heldur hann hjörð sína á öldunni fyrir utan og lýsingarnar á því hvernig hann kemur móður sinni sofandi fyrir í fjörunni og hvernig kollurnar koma loks til að gera sér hreiður í kringum hana, eru ærandi fagrar.

Í hugann kemur Skugga-Baldur eftir Sjón en þó kannski sterkar As I Lay Dying eftir Faulkner. Andrúmsloftið sem skapast á þessum síðum er hreinlega magnað. Fyrst og fremst er manni þó áfram hugsað til svartra bókmennta vestra. Dúnstúlkan í þokunni er kannski okkar Underground Railroad, okkar Beloved, með allri sinni þjáningu og öllu sínu handanheimstali, galdrakukli og sínálægum lifandi dauða, en líka uppreist æru. Eins og þessar systurbækur hennar fjallar hún um fólk sem kynnist í gegnum ör sín, situr og ber saman sár sín, telur skrámur. Allt rímast þetta svo saman í þeirri nöpru staðreynd að lausnarorð þessara Íslandsþræla er aðeins eitt: Ameríka.

Skýrar smápersónur birtast hér og þar, eins og til dæmis Gísli Ólafur, bátsformaðurinn slungni sem aldrei segir orð, og aldrei getur tekið þátt í samræðum, því hugurinn og augun eru alltaf föst við veðrabrigðin; bakkann í norðri, vindsveip úr austri, hin minnsta vangá getur drepið heila áhöfn. Eftirminnileg var einnig Gudda Jeminn, roskin vinnukona sem á sinn einasta son í Ameríku og veit ekkert hvar. Um skeið verður hún rekkjunautur Jóa sökum fátæktar beggja, þótt ekki sé um kynlíf að ræða, það er nánast ekkert kynlíf í þessari sveit/sögu. Gosflóttahjónin Ólína og Magnús fá einnig gott hlutverk, Grindvíkingar síns tíma.

Bókin er þó ekki öll ein stemmning því hún geymir frásagnarkraft, sögunni vindur stöðugt fram, alltaf gerist eitthvað nýtt, hvergi er dauður punktur. Stundum er sagan eins og ævintýrabók fyrir ungmenni þar sem ungir elskendur kljást við ofurefli og leita fjársjóðs. Stundum er sagan líka hreinræktuð Íslendingasaga, líkt og í uppgjörinu í Skoruvík þar sem Jói verður Grettir og gleypir tönn. Ein eftirminnilegasta bardagalýsing allra tíma, ótrúleg og raunsæ í senn. Og allan tímann er þetta auðvitað ástarsaga. Þar liggur kannski veikleiki verksins, í dúnstúlkunni sjálfri. Hún birtist þessum lesanda of óræð, of undarleg, ég átti bágt með að átta mig á henni og gjörðum hennar. Fyrst er hún kölluð dúnstúlka, þá Guðbjörg Salín, en síðan aftur aðeins dúnstúlkan, einmitt þegar við höfðum kynnst henni. (Jói nýtur hennar aðeins í draumi, er hún kannski tómur draumur?) Ég verð að viðurkenna að skildi ekki alltaf afstöðu hennar og alls ekki bláendann, en ég er nú reyndar heimilisfrægur fyrir fattleysi þegar kemur að plottum í bókum og bíómyndum. Kannski geta aðrir lesendur komið mér í skilning um ákvarðanir dúnstúlkunnar en þá mun reyndar þörf á höskuldarviðvörun í comments.

Að endingu getur maður ekki annað en óskað höfundinum til hamingju með magnað verk, og þjóðinni fyrir að hafa eignast það.”